Wednesday, May 29, 2013

Sá stærsti kominn upp á vegg

Verð að hafa þennan hér.
Ég fékk hann á ónefndum stað í fyrrahaust en af virðingu við afar viðkvæman veiðistað hef ég ekki gefið upp hvar ég fékk hann. Því heyrðist fleygt að ég hefði verið að stelast eitthvað og því hefði verið þessi leynd, vil bara taka það fram að það er alrangt, fiskurinn er fenginn á stað sem leyfilegt er að veiða, einungis fátítt að veiða svona höfðingja þar.
Hann var 80 cm. á lengd og hefur verið 18 pund úr ánni en vigtaði 17 pund þegar ég kom með hann til uppstopparans, hann fullyrti að hann hefði verið 18 pundin lifandi því 3-500 ml af blóði komi úr svona stórum fiski við blóðgun.
Allt um það þá held ég 18 pundunum fram, það hljómar svo vel.


Tuesday, August 30, 2011

Baugsstaðaós

þessi líka glimrandi ferð...
Ég fékk átta fiska og Hansi fékk sex. Sá stærsti var 4.75 kíló eða 9.5 pund. það er þessi á neðri myndinni. Ég er yfirleitt of slakur að taka myndir af veiðinni en mundi þetta eitt augnablik og smellti þessum af part af afrakstrinum.
Þessir fiskar eru nýgengnir úr sjó og gerast varla betri matur.
Feitir og fallegir og silfurbjartir. Þessir tveir eru 6-7 pund og sá litli var eitt pund.


Haustið er veiðitíminn... Þessi er 9.5 pund, hængur, mjög sterkur og skemmtilegur. Ég tók hann á ónefnda græna flugu sem ég hannaði sjálfur.

Thursday, September 09, 2010

Veiðin

Þegar ég var sjö ára gamall fór ég í mína fyrstu veiðiferð, einn míns liðs og veiddi minn fyrsta fisk. Pínulitla lækjarlontu sem var of föst á önglinum fyrir unga putta svo ég náði honum ekki af. Ég dró hann því á eftir mér heim, en ofan í læknum svo hann dræpist ekki. Skorðaði hann svo milli steina í vatni þegar heim var komið og sótti hjálp. Benni kom, losaði hann af, sagði að hann væri dauður og kastaði honum í stein, hrmff - ég var ekki par hrifinn af bróður mínum þá - man það enn.

Ég þarf ekki hjálp við að losa þá af önglinum í dag, né við að drepa þá. Ég sé um það sjálfur.
Volinn gaf góða veiði í gær. Ég fékk fjóra fiska 11, 10, 8 og 4,5 punda. Hlynur veiddi líka vel. Einn svona boltafisk og annan litlu minni og svo þrjá 3-4 pund. Það má segja að Volinn sé svona falið leyndarmál sem er samt ekkert leyndarmál. Ég hef oft fengið góða veiði þarna og gjarnan stórfiska.

Það er alltaf gaman að veiða en að fá stóra tröllkarla sem lát ekkert undan er virkilega spennandi.
Gærdagurinn var samt ekki dagurinn minn þannig séð þó ég hafi veitt ágætlega. Ég setti í átta fiska í röð og missti hvern einasta þeirra. Tveir þeirra voru mjög stórir, annan þeirra sá ég aldrei, hann synti um með færið í rólegheitum um allan hyl án þess að ég gæti tommað honum upp eða til hliðar. Hann sýndi mér bara fyrirlitningu og lét eins og hann vissi ekkert um að það var búið að veiða hann. Eftir að hafa togast á við hann í fimm mínútur þá slitnaði úr honum.
Hverskonar hvalur þetta var verður ósagt látið - en gríðastór var hann, klárlega plús tuttugu og eitthvað pundin.
Ég set hér myndir af okkur bræðrum með hluta aflans að gamni til að sýna að þetta eru ekki bara góðar veiðisögur úr Volanum.
Nei þeir eru ekki úr fiskbúðinni á Eyrarveginum ef þér datt það í hug.


Bætti við mynd af veiðinni úr Baugstaðaós frá því um daginn, þessir í frauðkassanum.

Hér neðst er svo maríulaxinn hans Heiðars sem hann veiddi í Þverá í sumar. Ég kom houm ekki undan því að bíta veiðiuggann og - kyngja honum líka, þó það sé auðvitað aldrei gert..... :o)

Tuesday, October 13, 2009

Volinn

Síðari tilraun haustsins tókst betur en sú fyrri. Ég fór um daginn með Hansa og Hlyn og kom með heim með öngulinn í rassinum. Þetta var auðvitað ný reynsla fyrir mig, verri en ég hefði haldið.
Ég á nú mun auðveldara með að setja mig í spor þeirra sem fara með mér í veiði ;0)

Gærdagurinn var flottur. Nú var áin tærari og vatnsminni en síðast og mun veiðilegri. Það kom líka á daginn að veiðin var margfalt meiri. Tengdasynirnir settu í fína fiska. Bjössi fékk silung og gríðarlega flottan lax sem var sterkur og þrjóskur að láta undan . Bjössi hafði samt betur fyrir rest og landaði sínumfyrsta laxi. Beit af honum veiðiuggann og allt.
Karlott veiddi vel enda fengið frábæra tilsögn (búinn að fara nokkrar ferðir með mér :o) og er orðinn nokkuð lunkinn. Hann fékk m.a. gríðarvænan sjóbirting sennilega nær 8 pundum.
Ég..... veiddi flesta fiska og stærstu líka.
Nei þetta er bara fíflagangurinn í mér. Ég veiddi samt vel, fékk tíu fiska, flestir mjög fallegir, þar af tvo laxa. Ég fékk forskot á strákana því ég skrapp aðeins kvöldið áður (það má veiða tvo tíma kvöldið fyrir hinn eiginlega veiðidag) og fékk þá tvo.
Ég fékk tvær heimsóknir í ána. Danni og Hansi kíktu báðir. Það má segja að veiðabakterían hefur ekki bara gripið mig ungan, bræður mínir eru jafn illa veikir.

Það var varla hægt að hætta að veiða, því í lok dagsins vorum við í bullandi tökum. Ég hef aldrei fyrr séð fisk taka undir sig stökk upp úr vatninu og ofan á agnið og það engin smásmíði. 12 - 15 punda urriði gerði þessar kúnstir hjá mér - hann festist ekki á og vildi ekki halda leiknum áfram. Ég missti á sama stað gríðarvænan sjóbirting og annan lax, báðir firnasterkir og stórir. þeir slitu báðir línuna. Það er áhættan að vera með grannan flugubúnað í svona stórfiskaá.
En það gerir þetta bara meira spennandi. Einn landaði sér sjálfur, það tók hann u.þ.b. 5 sekúndur. Hann tók með miklu offorsi, rauk af stað á gríðarlegri ferð, hálfur uppúr vatninu ....og beint upp á land, einmitt á sandeyri sem ekki er mikið um þarna. Auðvelt það, hann kom nánast fljúgandi í fangið á mér.
Ég fékk nánast allt á flugu. Flæðarmús og Erluna. Erlan er löngu búin að sanna sig. Ég veiði mest á þessar tvær og má ekki á milli sjá hvor gefur meira.
Eins og fyrri daginn er veiðiáhuginn svo mikill að ég gleymdi að taka myndir í túrnum. Ég tók samt myndir af aflanum hér á eldhúsborðinu og læt eina fylgja hér. Jú svo tók ég eina mynd af Karlott að fást við einn rígvænan.

Sunday, October 12, 2008

Markarfljót....

Hér eru myndir af nokkrum löxum úr fljótinu sem ég fékk í síðustu viku. 9, 7 og 4 pund.

Ég er auðvitað að sjá til þess að matur sé í kistunni fyrir þennan kreppuvetur sem framundan er, sagt í gríni ....og alvöru.

Saturday, October 11, 2008

Voli

Eyddi deginum í gær í Vola ásamt Hansa bróður mínum. Þetta var snilldardagur. Við veiddum vel og samfélagið var gott. Hér eru myndir af aflanum eftir að heim var komið. Því miður var veiðiáhuginn of mikill til að muna eftir að taka myndir í sjálfri ferðinni


Þessir tröllkallar eru 9, 10 og 12 pund! Ég missti fimm risa, einn ca. 15 punda lak af eftir hálftíma viðureign þegar ég var við það að hafa hönd á honum, kominn að bakkanum og farinn að leggjast, spælandi en hann átti þetta svo sem skilið, búinn að berjast hetjulega ....og vann.
Annar var styttra á. Sá allra stærsti sjóbirtingur sem ég hef augum litið. Metri á lengd og varla undir 20 pundum. Hann var alveg brjálaður. Sprautaðist upp í loftið endalaust og þeyttist hylinn endanna á milli með hraða sem ég hef ekki séð áður. Ótrúleg skepna. Hann sleit sig lausan í einu stökkinu. Þetta var adrenalínflæði á heimsvísu.


Þessi er 12 punda. Þurfti að elta hann niður flúðir þar sem ég réð ekkert ferðinni heldur hann.
Það var hálfsvekkjandi að hugsa um þessa tvo stóru, horfandi á þessa á borðinu hjá mér. En svona er veiðin, þeir stærstu sleppa oftar en hinir. Ég er meira en sáttur.



Hér er afraksturinn. þessir af millistærðinni sem virðast litlir eru það alls ekki, allir um 5 pundin. Sá minnsti er um pundið.








Stærðin sést vel á þessari mynd. Þetta voru myndarflök sem verða sett í reyk eftir helgi.

Ég er ákveðinn í að ná mér í fleiri daga í Vola á næsta ári.
Frábær ferð.
Svo er árlega veiðiferðin okkar Hlyns eftir en hún verður farin um næstu helgi.

Thursday, December 08, 2005

Hnútar... sem gott er að kunna!

Dropperinn.
Þessi hér fyrir ofan er notaður til að setja aukalykkju
á línuna t.d ef þú vilt setja auka taum og flugu á hann.

Þessi er okkar hefðbundni.
Svona festum við öngla, flugur og spúna við tauminn.

Þennan er nauðsynlegt að kunna
ef slitnar og setja þarf saman taum. Línan skerst ekki í sundur
á hnútnum.

Hér er hægt að skoða fleiri hnúta: http://www.netknots.com/

Counters
Free Counter