Thursday, September 09, 2010

Veiðin

Þegar ég var sjö ára gamall fór ég í mína fyrstu veiðiferð, einn míns liðs og veiddi minn fyrsta fisk. Pínulitla lækjarlontu sem var of föst á önglinum fyrir unga putta svo ég náði honum ekki af. Ég dró hann því á eftir mér heim, en ofan í læknum svo hann dræpist ekki. Skorðaði hann svo milli steina í vatni þegar heim var komið og sótti hjálp. Benni kom, losaði hann af, sagði að hann væri dauður og kastaði honum í stein, hrmff - ég var ekki par hrifinn af bróður mínum þá - man það enn.

Ég þarf ekki hjálp við að losa þá af önglinum í dag, né við að drepa þá. Ég sé um það sjálfur.
Volinn gaf góða veiði í gær. Ég fékk fjóra fiska 11, 10, 8 og 4,5 punda. Hlynur veiddi líka vel. Einn svona boltafisk og annan litlu minni og svo þrjá 3-4 pund. Það má segja að Volinn sé svona falið leyndarmál sem er samt ekkert leyndarmál. Ég hef oft fengið góða veiði þarna og gjarnan stórfiska.

Það er alltaf gaman að veiða en að fá stóra tröllkarla sem lát ekkert undan er virkilega spennandi.
Gærdagurinn var samt ekki dagurinn minn þannig séð þó ég hafi veitt ágætlega. Ég setti í átta fiska í röð og missti hvern einasta þeirra. Tveir þeirra voru mjög stórir, annan þeirra sá ég aldrei, hann synti um með færið í rólegheitum um allan hyl án þess að ég gæti tommað honum upp eða til hliðar. Hann sýndi mér bara fyrirlitningu og lét eins og hann vissi ekkert um að það var búið að veiða hann. Eftir að hafa togast á við hann í fimm mínútur þá slitnaði úr honum.
Hverskonar hvalur þetta var verður ósagt látið - en gríðastór var hann, klárlega plús tuttugu og eitthvað pundin.
Ég set hér myndir af okkur bræðrum með hluta aflans að gamni til að sýna að þetta eru ekki bara góðar veiðisögur úr Volanum.
Nei þeir eru ekki úr fiskbúðinni á Eyrarveginum ef þér datt það í hug.


Bætti við mynd af veiðinni úr Baugstaðaós frá því um daginn, þessir í frauðkassanum.

Hér neðst er svo maríulaxinn hans Heiðars sem hann veiddi í Þverá í sumar. Ég kom houm ekki undan því að bíta veiðiuggann og - kyngja honum líka, þó það sé auðvitað aldrei gert..... :o)

Counters
Free Counter